Dagbjört Halldórsdóttir er fædd 12. apríl 1947. Lára Guðmundsdóttir, f. 3. ágúst 1890, d. 8. mars 1974, föðursystir Dagbjartar arfleiddi hana að neðangreindri poesie-bók. Lára var dóttir hjónanna Dagbjartar Brandsdóttur, f. 13. september 1863, d. 23. október 1941 og Guðmundar Einarssonar steinsmiðs, f. 23. ágúst 1857, d. 11. júlí 1938, en þau þurftu að setja Láru í fóstur sökum fátæktar. Fósturforeldrar Láru frá 2ggja ára til 8 ára aldurs voru hjónin á Gýgjarhóli, Biskupstungnahreppi, Árnessýslu, þau Þórhildur Pálsdóttir og Guðmundur Guðnason. Dóttir þeirra var Margrét Guðmundsdóttir, f. 2. febrúar 1887, d. 3. ágúst 1960, sem Lára kallaði fóstursystur sína, en Margrét átti bókina.
Tvö systkina Margrétar hétu Guðni Guðmundsson, múrari, og Ingibjörg Guðmundsdóttir. Ingibjörg og maður hennar Jóhann Bjarnason, vélstjóri, bjuggu að Gljúfurholti (Gljúfurárholti?), Ölfushreppi, Árnessýslu í tvíbýli við Margréti og Guðna bróður Margrétar frá ca. 1931. Eftir að þau brugðu öll búi settu þau sig niður í Hveragerði.
Síðustu ár Margrétar bjó hún á Grenimel 5, og síðast á Laugavegi 137 í Reykjavík, hvorttveggja í sambýli með Láru Guðmundsdóttur. Íbúðarhús Ingibjargar og Jóhanns að Gljúfurholti brann ca. 1975, en hús Margrétar og Guðna stendur enn.
Áður en Margrét flutti að Gljúfurholti bjó hún um tíma á Laugavegi 76. Margrét var trúlofuð ungum sjómanni, sem fórst á skútunni Ingvari á Viðeyjarsundi 1906 í augsýn Reykvíkinga. Hún giftist aldrei.
Margrét og Guðni tóku ungan dreng, Guðjón að nafni, í fóstur; hann lést um tvítugt og er jarðaður að Kotströnd. Ingibjörg og Jóhann ólu að nokkru leyti upp stúlku, Ásu Sæmundsdóttur, f. 21. ágúst 1924.
Póesí-bókin er gjöf Dagbjartar Halldórsdóttur til Borgarskjalasafns. Póesíbók er eins konar minningabók. Oft eru orðin vísnabók og póesíbók notuð nokkuð jöfnum höndum, flestir munu þó tengja póesíbók öðru fremur við rómantík
Í póesíbækur voru skráðar vísur og kvæði til árnaðar eiganda.
Halldór, fyrrverandi forstjóri Shell og Sigríður, frönskukennari í Menntaskólanum í Reykjavík, börn Magnúsar Skaftfjeld, bifreiðarstjóra í Reykjavík, en Guðrún Halldórsdóttir, sú fyrsta sem skrifar í bókina, var systir hans, eru aðalheimildarmenn að ofangreindum upplýsingum, en Axel Sigurðsson, lyfjafræðingur, aflaði þeirra, og afhenti safninu bókina 11. apríl 2001.
Poesie-bók, ca 1908-1912, merkt á saurblaði Margréti Guðmundsdóttur. Bókin er bundin í tréspjöld klædd skinni og skreytt upphleyptum fölrauðum rósum og grænlituðu laufskrúði. Bókin hefur að geyma spakmæli, heilræðavísur, stökur og ljóð; eitt ljóð er á dönsku eftir H. Nyblom. Ljóðin eru flest eftir kunn íslensk skáld.
Eftirfarandi hafa ritað í bókina – sum ljóðanna eru þó nafnlaus:
Guðrún Halldórsdóttir, Guðni Þorláksson, Guðm. Þorbjörnsson, Guðrún Þorsteinsdóttir, Álfdís H. Jónsdóttir, Þóra Petrína Jónsdóttir, Gunnhildur Magnúsdóttir, G.H., Gudda, Guðríður, Hildur, Einar Halldórsson, Guðmundur Þorláksson, G. Bjarnason, Guðlaug Hafliðadóttir, Kr. Jónsson, M. Auðunsson, Tóta í Breiðholti, Guðbr. Guðmundsson frá Búðardal, Gunna, Steina (þ.e. Steinunn Kristjánsdóttir, eiginkona Magnúsar Skaftfjeld, ævivinkona Láru Guðmundsdóttur).
Skráð RB